Viðskipti innlent

Helga Melkorka tekur við framkvæmdastjórn LOGOS

Helga Melkorka Óttarsdóttir hæstaréttarlögmaður hefur tekið við faglegri framkvæmdastjórn LOGOS lögmannsþjónustu. Helga tekur við starfinu af Gunnari Sturlusyni hæstaréttarlögmanni sem gegnt hefur starfinu síðastliðin 12 ár.

Í tilkynningu segir að Helga hóf störf hjá LOGOS árið 2001 og gekk í raðir eigenda stofunnar árið 2002. Áður starfaði hún m.a. hjá Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel og hefur hún í störfum sínum lagt megináherslu á samkeppnisrétt, Evrópurétt og félagarétt.

„Ég hlakka til að takast á við þetta nýja verkefni samhliða lögmannsstörfunum,“ segir Helga Melkorka í tilkynningunni.

„Ég tek við góðu búi af forvera mínum sem hefur leitt uppbyggingarstarf  stofunnar af mikilli elju á undanförnum árum. LOGOS er leiðandi lögmannsstofa með yfir 60 lögfræðinga og 20 aðra starfsmenn í þjónustu sinni, bæði í Reykjavík og á skrifstofu sinni í London. Faglega framkvæmdastjórnin er því viðamikið starf og um leið er mikil áskorun í því fólgin að taka við þessu kefli".

Gunnar snýr sér að nýju að lögmennsku hjá LOGOS og mun hann leggja áherslu á félagarétt, samkeppnisrétt og málflutning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×