Viðskipti innlent

Verulega dregur úr atvinnuleysi og staðan batnar

Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi á fyrsta ársfjórðungi ársins og staðan hefur batnað töluvert á vinnumarkaðinum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem vitnað er í nýjustu tölur frá Vinnumálastofnun sem settar voru fram fyrir helgina. Skráð atvinnuleysi mældist 5,3% í mars síðastliðnum og minnkar þar með um 0,2 prósentustig frá febrúarmánuði. Þetta er í neðri mörkum þess bils sem Vinnumálastofnun hafði reiknað með að það yrði í mánuðinum (5,3%-5,7%).

„Sé tekið mið af fyrsta ársfjórðungi hefur skráð atvinnuleysi mælst að jafnaði 5,4% í ár samanborið við 7,2% á sama tíma í fyrra og 8,6% árið þar á undan. Hefur því verulega dregið úr atvinnuleysi á milli ára, og af þessum tölum er ljóst að staðan á vinnumarkaði hefur batnað töluvert,“ segir í Morgunkorninu.

„Þó gætir áhrifa af því að bráðabirgðaákvæði sem gerði atvinnuleitendum kleift að fá greiddar atvinnuleysistryggingar í allt að 4 ár rann út um síðustu áramót, og hefur skráð atvinnuleysi af þeim sökum mælst nokkuð minna á þessu ári. Þessa áhrifa gætir hins vegar ekki í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands sem sýnir einnig að verulega hefur dregið úr atvinnuleysi á milli ára...

Hjöðnun atvinnuleysis á milli ára er í takti við það sem opinberar spár hafa reiknað með og má vænta að framhald verði á þeirri þróun næstu árin, nema eitthvað verulegt bakslag komi í efnahagsbatann.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×