Viðskipti innlent

Dregið verði úr uppgreiðsluáhættu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra fékk skýsluna afhenta í dag.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra fékk skýsluna afhenta í dag.
Starfshópur sem fjallaði um stöðu og framtíð Íbúðalánasjóðs telur að finna þurfi hentuga leið til að draga úr hluta af þeirri uppgreiðsluáhættu sem Íbúðalánasjóður stendur frammi fyrir. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra fékk tillögurnar afhentar í dag og þær voru gerðar opinberar síðdegis.

Í tillögunum er fjallað um þann uppgreiðsluvanda sem blasir við Íbúðalánasjóði. Eftir að viðskiptabankarnir hófu að veita óverðtryggð lán tóku lántakendur að greiða upp verðtryggð lán sín hjá Íbúðalánasjóði til þess að geta tekið ný lán hjá viðskiptabönkunum. Þetta hefur valdið því að bankinn sat eftir með verulegt lausafé. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um það að Íbúðalánasjóður veiti óverðtryggð lán, þótt heimild fyrir slíku liggi fyrir frá Alþingi.

Þá verði aðgætni í starfsemi sjóðsins þannig að lánahlutföll verði ekki hækkuð umfram það sem nú er. Þannig er lagt til að hlutfall lána til einstaklinga fari ekki yfir 80% af verðmæti húsnæðis og lán til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka án hagnaðarkvaðar verði eins og tiltekið er í lögum um húsnæðismál. Einnig er lagt til að áfram verði unnið að eflingu á greiðslumatsferli og útlánaeftirliti innan sjóðsins. Þannig verði betur tryggt að lántakendur Íbúðalánasjóðs séu í stakk búnir til að standa við skuldbindingar sínar og þar með ættu vanskil og útlánatöp að verða minni til framtíðar.

Draga úr ábyrgð ríksisins

Þá segir starfshópurin að draga þurfi úr ábyrgð ríkisins á skuldbindingum sjóðsins en ríkissjóður ber nú 100% ábyrgð á skuldum Íbúðalánasjóðs og námu þær 942 milljörðum króna um síðustu áramót sem nemur 55% af vergri landsframleiðslu.

Þá leggur hópurinn til að stofnaður verði heildsölubanki og að Íbúðalánasjóður fjármagni sig á markaði í gegnum þann banka. Hlutverk heildsölubankans lúti einungis að því að fjármagna útlán fyrir hönd Íbúðalánasjóðs og fjármálafyrirtækja. Gert er ráð fyrir að viðskiptasamband lántakenda verði við einstakar lánastofnanir sem með aðild sinni að heildsölubankanum geti veitt samkeppnishæf fasteignaveðlán á þann hátt sem viðkomandi lánastofnun telji best fyrir komið og að Íbúðalánasjóður geti veitt þjónustu í almannaþágu.

Starfshópurinn leggur til að frekari athugun fari fram á vegum stjórnvalda hvernig haganlegast sé að standa að stofnun heildsölubanka í samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja, Íbúðalánasjóð og aðra hagsmunaaðila.

Hér má sjá tillögurnar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×