Viðskipti innlent

Lagt til að Landsbankinn greiði tæpa 10 milljarða í arð

Bankaráð Landsbankans leggur til að félagið greiði hluthöfum arð sem nemur 0,42 krónum á hlut fyrir árið 2012, sem samsvarar um 39% af hagnaði. Samkvæmt þessu mun arðgreiðslan nema rétt tæpum 10 milljörðum króna og rennur megnið af þeirri upphæð í ríkissjóð.

Tillaga um arðgreiðsluna verður lögð fyrir aðalfund Landsbankans í dag. Þar segir segir að miða skuli við hlutaskrá í lok 30. september nk. og að útborgunardagur verði 1. október nk.

Af þessum 10 milljörðum renna 9,7 milljarðar kr. í ríkissjóð en tæplega 200 milljónir kr. eða 2% til starfsmanna bankans.

Af öðrum tillögum má nefna að lagt er til að þóknun almennra bankaráðsmanna fyrir tímabilið fram til næsta aðalfundar skuli vera  350.000 kr. á mánuði, greitt í samræmi við launagreiðslur til bankamanna.

Þóknun bankaráðsformanns skal vera 600.000 kr. og þóknun varaformanns  425.000 kr. á mánuði. Þóknun til hvers bankaráðsmanns fyrir störf í undirnefndum bankaráðs skal vera 100.000 kr. á mánuði. Þóknun til varamanna skal vera  175.000 kr. fyrir hvern setinn fund, en þó aldrei hærri en þóknun aðalmanna innan hvers mánaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×