Viðskipti innlent

Verðmætir ráðstefnugestir koma til landsins á næsta ári

Samtök bandarískra blaðamanna sem sérhæfa sig í skrifum fyrir ferðablöð og tímarit (SATW) hafa staðfest við Meet in Reykjavík (Ráðstefnuborgin Reykjavík) að árleg ráðstefna þeirra verið haldin hér á landi í lok september á næsta ári.

Í tilkynningu segir að búist sé við um 350 ráðstefnugestum sem ætla jafnframt að ferðast um landið og safna áhugaverðu efni til að birta greinar og ljósmyndir í virtum ferða- og lífsstílsblöðum um allan heim

„Ráðstefnugestir gerast ekki mikið verðmætari, því efni frá þessu fólki er birt í þúsundum fjölmiðla og bloggsíðna á mörgum mikilvægustu markaðssvæðum Íslands,“ segir Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík í tilkynningunni.

Ráðstefnur SATW eru haldnar árlega víða um heim. Síðast var ráðstefnan haldin í Indianapolis, Indiana og 2011 á Nýja Sjálandi, en  í ár verður hún við Mexíkóflóa í Biloxi, Mississippi. Búast má við að beinar tekjur af ráðstefnunni hér á landi verði um 150 milljónir króna. Því til viðbótar er gert ráð fyrir  að langflestir gestanna á ráðstefnu SATW skrifi um Ísland eða selji ljósmyndir héðan, sérstaklega í ljósi þess að fæstir þeirra hafa komið hingað áður.

Verðmæti birtinga í fjölmiðlum í tengslum við ráðstefnuna er áætlað 300-750 milljónir króna ef miðað er við reynsluna frá Nýja Sjálandi og heildarverðmæti ráðstefnunnar því á bilinu 450-900 milljónir króna. Leiða má líkur að því að verðmæti hvers ráðstefnugests gæti verið frá 1,3 til 2,6 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×