Viðskipti innlent

Þorsteinn Már segir að Samherji hafi hugsanlega gert mistök í gjaldeyrismálum

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir að útgerðin hafi hugsanlega gert mistök í tengslum við gjaldeyrislög en ásakanir um kerfisbundið svindl væru fráleitar.

Þetta kom fram í viðtali við Þorstein Má í morgunþætti Ríkisútvarpsins í morgun. Í fréttum í gær kom fram að Seðlabankinn hefði vísað meintum brotum Samherja á gjaldeyrislögunum til sérstaks saksóknara.

Á vefsíðu Ríkisútvarpsins kemur fram að Þorsteinn Már segir að það væri sér léttir að nú væri komin hreyfing á rannsókn Seðlabankans á Samherja. Hann hafnaði ásökunum um kerfisbundið svindl en sagði að mistök kynnu að hafa gerst.

Seðlabankinn rannsakaði hugsanleg brot Samherja vegna útflutnings á fiski. „Þorsteinn Már ítrekaði fyrri orð sín um að stofnað hefði verið til rannsóknarinnar á röngum forsendum,“ segir á vefsíðunni.

„Þorsteinn sagðist ekki hafa fengið formlegar upplýsingar um málið frá Seðlabankanum um framgang málsins. Lögmaður félagsins hefði fengið stutt samtal um þetta í gær, sagði Þorsteinn og kvað Seðlabankann hafa komið málinu í fjölmiðla í gær.“

Þá sagði Þorsteinn Már  að í öllum fyrirtækjum væru gerð mistök og sennilega mætti finna eitthvað sem betur hefði mátt gera hjá Samherja. Í marga mánuði eftir hrun hefðu menn unnið myrkranna á milli við að láta fyrirtækið ganga, vegna þess að greiðslufrestir og bankafærslur hefðu riðlast. Aðspurður sagðist hann þó ekki telja að fyrirtækið hefði gert eitthvað sem stangaðist á við lög.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×