Viðskipti innlent

Vaxtakrafan á erlendum skuldabréfum ríkisins snarlækkar

Ávöxtunarkrafa á erlendum skuldabréfaútgáfum ríkissjóðs hefur lækkað verulega frá miðju síðasta ári. Endurspeglar sú þróun bæði aukið traust á íslenska ríkinu sem skuldara og einnig minni áhættufælni á erlendum skuldabréfamörkuðum.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þetta sé afar jákvæð þróun sem bæði bendir til þess að stjórnvöld muni geta endurfjármagnað skuldsettan gjaldeyrisforða Seðlabankans á tiltölulega hagstæðum kjörum þegar fram í sækir, og eins að aðrir stórir innlendir lántakar í erlendri mynt eigi greiðari leið að ásættanlegri endurfjármögnun en áður.

Ríkissjóður hefur á undanförnum misserum gefið út tvö skuldabréf í Bandaríkjadollurum í því skyni að fjármagna gjaldeyrisforða Seðlabankans. Hið fyrra, sem er með lokagjalddaga í júní 2016, var gefið út sumarið 2011 og ber 4,875% nafnvexti. Síðara bréfið, sem er með lokagjalddaga í maí 2022, var gefið út í maí árið 2012 og ber 5,875% nafnvexti. Hvor útgáfa um sig er 1 milljarðar dollara að stærð.

Skemmst er frá því að segja að ávöxtunarkrafa beggja bréfanna hefur farið hríðlækkandi undanfarið. Má þar nefna að um mitt síðasta ár var krafa 2016-bréfsins 4,8% og krafa 2022-bréfsins 6,2%. Í gær var krafa fyrrnefnda bréfsins hins vegar komin niður í 2,7% og krafa þess síðarnefnda niður í 3,7%.

Álag bréfanna miðað við sambærileg bandarísk ríkisskuldabréf hefur lækkað að sama skapi. Álagið var 4,3% á styttra bréfinu og 4,6% á því lengra í júlíbyrjun í fyrra. Í gær var álagið hins vegar komið niður í 2,3% fyrir styttra bréfið og 2,0% fyrir það lengra.

Á þessu tímabili hefur skuldatryggingaálag á íslenska ríkið einnig helmingast. Álagið var 298 punktar í júnílok í fyrra en var í gær 143 punktar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×