Viðskipti innlent

Lækkun gullverðs kostar Seðlabankann vel yfir 2 milljarða

Lækkun á heimsmarkaðsverði á gulli frá áramótum hefur leitt til þess að verðmæti gullforða Seðlabanka Íslands hefur rýrnað um yfir 2 milljarða króna á þeim tíma.

Í nýjasta efnahagsreikningi Seðlabankans frá síðustu mánaðarmótum kemur fram að verðmæti gullforðans stóð í 12,7 milljörðum króna og hafði rýrnað um rúman milljarð kr. frá áramótum.

Um síðustu mánaðarmót stóð gullverðið í um 1.600 dollurum á únsuna.  Síðan fór það hratt lækkandi og endaði með því að hrynja í upphafi þessarar viku. Það hefur aðeins rétt úr kútnum síðan og stendur nú í tæpum 1.400 dollurum á únsuna.

Verðið er sumsé vel yfir 10% lægra en það var um síðustu mánaðarmót og því hefur gullforði Seðlabankans rýrnað um yfir 1,2 milljarða kr. í apríl sem bætist við tapið sem orðið var frá áramótum og til marsloka.

Seðlabanki Íslands er í hópi allra seðlabanka heimsins hvað varðar mikið tap sökum þess að gullverðið hrapaði í þessum mánuði. Í frétt sem birtist í fyrradag á visir.is var vitnað í Bloomberg fréttaveituna þar sem fram kom að lækkun á gullverðinu undanfarin tvö ár hefði kostað seðlabankana um 65.000 milljarða kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×