Viðskipti innlent

Íslandsbanki greiðir eigendum sínum þrjá milljarða í arð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Friðrik Sophusson er stjórnarformaður Íslandsbanka.
Friðrik Sophusson er stjórnarformaður Íslandsbanka. Mynd/ GVA.
Eigendur Íslandsbanka, sem eru kröfuhafar í þrotabú Glitnis og ríkissjóður, fá greidda þrjá milljarða króna í arð vegna rekstrarársins 2012. Tillaga stjórnar bankans þessa efnis var samþykkt á aðalfundi í dag.

Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, sagði á fundinum að eignarhald bankans hafi haldist óbreytt frá því í október 2009 og að á þeim tíma hafi þeim aldrei verið greiddur arður. Á sama tíma hafi bankinn lagt um 23 milljarða til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Friðrik sagði þessa ákvörðun endurspegla að rekstargrundvöllur bankans væri kominn í ákveðið jafnvægi og útgreiðsla lágmarksarðs því eðlileg að mati stjórnar.

Bankinn verði seldur

Friðrik vék máli sínu að eignarhaldi bankans og sagði ljóst að núverandi eigendur ætli sér ekki að eiga hann til framtíðar. Hann sagði mestu máli skipta fyrir viðskiptamenn, starfsmenn og samfélagið að Íslandsbanki verði í eigu einkaaðila, innlendra eða erlendra, sem ætla sér að stunda fjármálastarfsemi til framtíðar og hafa langtímasjónarmið að leiðarljósi. Þannig geti bankinn best rækt skyldur sínar við viðskiptavini, atvinnulíf og samfélagið í heild.

Birna Einarsdóttir sagði að árið 2012 hefði markað þáttaskil í rekstri Íslandsbanka og hefði verið ár viðsnúnings þar sem vinna síðustu ára hefði skilað sér í öflugri banka og betri hag viðskiptavina. Í máli hennar kom fram að hagnaður ársins nam 23,4 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 17,2%. Hún sagði efnahag bankans vera traustan sem geri honum kleift að vera mikilvæg undirstaða í uppbyggingu  íslensks atvinnulífs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×