Viðskipti innlent

Besta rekstrarár í sögu Auðar Capital

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ný stjórn Auðar Capital var kjörin.
Ný stjórn Auðar Capital var kjörin.
Kristín Pétursdóttir lætur af störfum forstjóra Auðar Capital og Hannes Frímann Hrólfsson tekur við sem forstjóri félagsins. Þetta var tilkynnt á aðalfundi félagsins í gær, þar sem jafnframt var kosin ný stjórn. Kristín er nýr stjórnarformaður. Félagið skilaði 162 milljóna króna hagnaði í fyrra.

Rekstrarárið var það besta í sex ára sögu Auðar Capital og einkenndist af auknum umsvifum og góðri ávöxtun. Tekjur jukust á milli ára um 300 milljónir króna. Alls námu þær um 808 milljónum króna og hafa þóknanatekjur aukist jafnt og þétt frá stofnun.  Rekstrarkostnaður lækkaði milli ára og nam 654 milljónum króna. Arðsemi eigin fjár var 14,5%. Félagið er skuldlaust og nemur eigið fé þess um 1,2 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall (CAD) er 44,3%.

Auður Capital hefur lokið fjármögnun á nýjum 5 milljarða króna framtakssjóði, Eddu slhf. Um 30 stofnana- og fagfjárfestar leggja sjóðnum til fé, m.a. flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins. Edda er langtímafjárfestir sem mun fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum á Íslandi. Sjóðurinn byggir á reynslu Auðar Capital af rekstri framtakssjóða og þeim fjárfestingartækifærum sem til staðar eru í íslenskum fyrirtækjum.  Auður Capital hefur rekið framtakssjóðinn Auði 1 í fimm ár, en hann hefur á þeim tíma fjárfest fyrir tæplega þrjá milljarða króna í níu íslenskum fyrirtækjum með góðum árangri.

Á aðalfundinum var félaginu kosin ný stjórn undir forystu Kristínar Pétursdóttur sem hefur frá upphafi verið forstjóri Auðar Capital. Í stjórninni eru auk hennar Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson og Ingólfur Guðmundsson. Við starfi Kristínar sem forstjóri tekur Hannes Frímann Hrólfsson sem verið hefur aðstoðarforstjóri félagsins undanfarin misseri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×