Viðskipti innlent

Átján fyrirtæki eru með í saltfiskverkefninu

Átján fyrirtæki hafa þegar gengið til liðs við markaðsverkefnið um að efla sölu á íslenskum saltfisk í Suður Evrópu. Alls verður 50 milljónum króna varið til þessa verkefnis í ár.

Fjallað er um málið á vefsíðu stjórnarráðsins. Þar segir að í gær var skrifað undir samning um markaðsverkefni í Suður Evrópu á íslenskum saltfiski til eins árs. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra undirrituðu samninginn fyrir hönd ríkisins sem leggur til 20 milljónir króna í þetta sameiginlega markaðsverkefni, en framlagið miðast við jafnhátt eða hærra framlag frá öðrum þátttakendum.

Fyrirtæki í framleiðslu og útflutningi á söltuðum afurðum til Spánar, Ítalíu og Portúgal eru þátttakendur í verkefninu, sem og þjónustufyrirtæki, og leggja þau fram mótframlag ásamt Íslandsstofu en samtals er fjárhagsáætlun verkefnisins til eins árs 50 milljónir kr. Skjöldur Pálmason formaður Íslenskra saltfiskframleiðenda undirritaði samninginn fyrir hönd fyrirtækjanna og Jón Ásbergsson fyrir hönd Íslandsstofu, en þessir aðilar áttu frumkvæði að verkefninu.

Íslenskar saltfiskafurðir eru meðal mikilvægustu útflutningsafurða til Suður Evrópu, en markaðir hafa verið að dragast saman að undanförnu vegna erfiðs efnahagsástands og harðnandi samkeppni. Á fundinum þar sem skrifað var undir samninginn kom fram að þetta verkefni er mikilvægur liður í að móta sameiginlegar markaðsaðgerðir með virkri þátttöku hagsmunaaðila og vonandi vísir að stærra verkefni í sameiginlegu markaðsstarfi fyrir íslenskar sjávarafurðir.

Gunnar Tómasson formaður verkefnisstjórnar sagði markmið verkefnisins vera að efla samkeppnisstöðu íslenskra saltfiskafurða og auka verðmætasköpun á mörkuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×