Viðskipti innlent

Nýja skonnortan kemur til Húsavíkur í dag

Hin nýja skonnorta Norðursiglingar á Húsavík, Opal, kemur til Húsavíkur í dag klukkan 15:00.

Í tilkynningu segir að skútunni var siglt frá Ebeltoft í Danmörku, um Skotland og Færeyjar og gekk siglingin vel, undir seglum meiri hluta leiðarinnar.

Heimir Harðarson skipstjóri Opal og einn eigenda Norðursiglingar segir að Opal hafi reynst afar vel, bæði traust og lipur til siglinga.

Á Húsavík bíður Opal nýtt hlutverk sem leiðangurs- og hvalaskoðunarskip Opal er 32 metra löng, tvímastra skonnorta með 380 fm seglaflöt og níu segl. Opal hefur káetur fyrir 12 farþega, í sex klefum, auk áhafnar. Um borð er 280 hestafla Scania vél og skipið er vel búið tækni- og öryggisbúnaði.  Skonnortan er byggð sem togari í Damgarten árið 1952 en hún er úr eik.

Árið 1973 tóku nýir, danskir eigendur við skipinu og á næstu átta árum þar á eftir var Opal breytt í skonnortuna sem hún er í dag. Í janúar síðastliðnum festi Norðursigling kaup á skipinu.  Með þessari viðbót hyggst Norðursigling byggja enn frekar undir framboð á skútusiglingum auk þess að mæta aukinni eftirspurn eftir lengri ferðum og leiðöngrum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×