Viðskipti innlent

Nýtt hótel opnar á Ísafirði í sumar

Nýtt hótel mun opna í miðbæ Ísafjarðar þann 1. júní n.k., og hefur það fengið nafnið Hótel Horn.

Í tilkynningu segir að nafnið sé skírskotun í magnaða náttúru Hornstranda og Hornbjargs, þangað sem æ fleiri ferðamenn sækja. Hótelið er staðsett á einu þekktasta horni Ísafjarðar, gamla Kaupfélagshorninu og verður allt hið glæsilegasta, enda hefur mikið verið lagt í endurbætur á húsinu sem staðið hafa yfir í allan vetur.

„Það er gaman að geta bætt við vönduðu gistirými á Ísafirði í þessu sögufræga húsi sem meðal annars hefur hýst bæjarskrifstofur og kaupfélagsskrifstofur. Mikill gangur er í vestfirskri ferðaþjónustu og þetta sýnir að við höfum trú á því að hér muni ferðamönnum fjölga," segir Áslaug Alfreðsdóttir hótelstjóri á Hótel Ísafirði sem rekur Hótel Horn í tilkynningunni.

Sérstaklega er stílað inn á fjölskyldufólk á Hótel Horni, en herbergin eru mjög rúmgóð, sum þeirra er einnig hægt að tengja saman til að skapa enn stærra rými, auk þess sem sérstök fjölskylduherbergi eru í boði.

Hótelið verður opnað í tveimur áföngum. Í sumar verða 12 herbergi tekin í notkun á annarri hæð hússins en næsta sumar verða önnur 12 herbergi opnuð á þriðju hæð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×