Viðskipti innlent

Þungt ár framundan

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Darri Andrason, aðalhagfræðingur ASÍ.
Ólafur Darri Andrason, aðalhagfræðingur ASÍ.
Árið framundan verður þjóðinni nokkuð þungt, segir í endurkoðaðri hagspá sem Alþýðusamband Íslands birti í dag. Spáin nær til áranna 2013 til 2015. Efnahagsbatinn er hægur, landsframleiðslan verður aðeins 1,9%, atvinnuleysi enn mikið, gengi krónunnar helst veikt og verðbólga há. Árið 2014 er þó gert ráð fyrir að landið fari heldur að rísa og enn frekar árið 2015.

Í spánni segir að kaupmáttur heimilanna hafi vaxið undanfarin ár og stutt við hóflegan vöxt einkaneyslunnar. Þrátt fyrir batnandi stöðu á vinnumarkaði, lengri vinnutíma og launahækkanir muni kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna dragast saman á þessu ári og því næsta. Skýringin sé sú að sértækum aðgerðum til stuðnings skuldugum heimilum ljúki að mestu á árinu auk þess sem mikil verðbólga rýrir kaupmátt ráðstöfunartekna. Þetta muni endurspeglast hóflegum vexti einkaneyslunnar allan spátímann. Hagdeild spáir því að einkaneysla aukist um 2% í ár, 1,4% á næsta ári og 2,6% árið 2015.

Þá segir í spánni að hægt hafi á efnahagsbatanum og nú bendi flest til þess að hagvöxtur í ár verði rétt undir 2%, sem sé nokkuð minna en hagdeildin spáði í október. Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni þá hafi hagvöxturinn í fyrra verið undir væntingum eða 1,6%. Breytinguna megi að mestu rekja til minni samneysluútgjalda og minni útflutnings en gert hafi verið ráð fyrir í október. Efnahagslífið haldi þó áfram að reisa sig og gangi spá hagdeildar eftir verði hagvöxtur rétt um 3% árin 2014 og 2015. Búast má við að gengi krónunnar verði áfram veikt en styrkist þó lítillega eða um 2,5% á spátímanum. Staðan á vinnumarkaði batnar á næstu árum í takt við efnahagslífið og heimilin halda áfram að rétta úr kútnum. Verðbólga verður mikil í ár en minnkar þegar líður á spátímann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×