Viðskipti innlent

Gengi krónunnar styrkist í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans

Gengi krónunnar í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans hefur styrkst í samræmi við styrkingu á opinbera genginu.

Í síðasta útboði Seðlabankans sem fram fór í vikunni samþykkti bankinn tilboð fyrir 37,3 milljónir evra á genginu 225 kr. eða samtals fyrir yfir 8 milljarða króna.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu að gengi krónunnar í útboðinu var það sterkasta gagnvart evru frá því í ágúst árið 2011. Frá gjaldeyrisútboðinu í febrúar lækkaði þannig verð evru um 5 kr. Á sama tímabili hefur gengi krónunnar styrkst þó nokkuð á innlendum gjaldeyrismarkaði, en evran hefur farið úr 172 kr. í 163 kr.

Seðlabankinn náði einnig góðum árangri á hinum endanum það er í fjárfestingarleiðinni svokölluðu þar sem evrur eru seldar fyrir krónur. Þar nam fjárhæðin rúmum 34 milljónum evra og hefur ekki verið hærri síðan að þessi leið var fyrst kynnt til sögunnar fyrir rúmu ári síðan. Gengi evrunnar í þeim viðskiptum var 226 kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×