Viðskipti innlent

Rifti viðskiptum með verðlaus bréf í Baugi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson var stjórnarformaður Baugs.
Jón Ásgeir Jóhannesson var stjórnarformaður Baugs.
Fimmtán milljarða króna greiðsla Baugs Group sem greidd var sumarið 2008 til Fjárfestingafélagsins Gaums, Gaums Holding S.A. og Eignarhaldsfélagsins ISP og Bague S.A. var rift í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Ber félögunum að greiða þrotabúi Baugs þessar samsvarandi upphæðir til baka. Félögin voru í eigu Jóhannesar Jónssonar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu þeirra.

Málið tengist sölu Baugs Group á Högum til félagsins 1998 ehf, en félagið 1998 var einnig í eigu Jóhannesar, Jóns Ásgeirs og fjölskyldu. Eftir að Baugur Group seldi Haga til 1998 ehf. var ákveðið að Baugur myndi kaupa hlutabréf áðurnefndra fjögurra félaga í sjálfu sér fyrir alls fimmtán milljarða króna. Í dómnum segir að hlutabréf í Baugi Group hafi á þessum tíma, þ.e. sumarið 2008, verið verðlaus. Því hafi í raun ekkert endurgjald hafi komið fyrir þær greiðslur sem hin stefndu félög, Gaumur, Gaumur Holding, ISP og Bague fengu frá Baugi.

„Þá ber að leggja til grundvallar að greiðslurnar hafi í raun skert eignir Baugs og raskað hagsmunum almennra kröfuhafa við slit á búi félagsins," segir í dómnum. Þá segir að greiðslurnar til félaganna hafi verið notaðar til að greiða niður skuldir þeirra hjá Kaupþingi og Kaupthing Bank Luxembourg. Greiðslurnar hafi leitt til lækkunar á skuldum félaganna og þannig til auðgunar þeirra.

Hér má lesa dóminn í heild sinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×