Viðskipti innlent

Spá samdrætti í fjárfestingum í sjávarútvegi á næstunni

Stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja spá því að fjárfesting dragist saman á næsta ári samkvæmt niðurstöðu könnunnar um framtíðarhorfur á Íslandi.

Fjallað er um málið á vefsíðu LÍÚ. Þar kemur fram að langflestir þeirra telja að horfur séu á að ástandið í efnahagslífinu eigi ekki eftir að batna á næstu 6 mánuðum og telja að framlegð fyrirtækja muni dragast verulega saman á sama tíma. Einungis 11% sjá fram á fjölgun starfa. Könnunin er gerð árlega af Samtökum atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands og snýst um mat stærstu fyrirtækja landsins á framtíðarhorfum á Íslandi.

Í könnuninni kemur fram að 60% stjórnenda sjávarútvegsfyrirtækja telja að fjárfesting verði nokkuð eða miklu minni á árinu 2013 en árið á undan. Þar af telja 25,7% þeirra að fjárfesting verði miklu minni en 34,3% telja að hún verði nokkuð minni. 37,1% þeirra sem tóku þátt í könnuninni telja að fjárfestingar verði svipaðar árið 2013 og þær voru árið 2012 en aðeins 3% telja að fjárfestingar eigi eftir að aukast.

Fjárfestingar í sjávarútvegi hafa síðustu ár minnkað verulega þrátt fyrir góða afkomu í greininni. Í slíku árferði ætti alla jafna að vera svigrúm til fjárfestinga en af henni hefur ekki orðið. Ástæðan er fyrst og fremst sú óvissa sem ríkt hefur í greininni bæði um skerðingar aflaheimilda sem og margföldun veiðigjaldsins sem mun gera litla fjárfestingu enn minni, að því er segir á vefsíðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×