Viðskipti innlent

Hreinar eignir nema tæpum 1400 milljörðum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hreinar eignir aukast hægt og bítandi.
Hreinar eignir aukast hægt og bítandi.
Hreinar fjáreignir heimila og félagasamtaka, það er eignir umfram skuldir, jukust um 7,5% á milli 2010 og 2011 og stóðu í 1.388 milljörðum króna í árslok 2011. Fjáreignir heimila og félagasamtaka námu 3.080 milljörðum króna í lok þess árs og voru fjárskuldbindingar þeirra 1.692 milljarðar króna á sama tíma.

Sem hlutfall af landsframleiðslu hafa fjáreignir aukist hægt og bítandi eftir hrun bankanna árið 2008 og voru 85,1% í lok árs 2011. Fjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja jukust um 7,4% á milli 2010 og 2011 á sama tíma og fjárskuldbindingar jukust um 4,5%. Skuldir fyrirtækja umfram eignir voru 2.692 milljarðar króna í lok árs 2011.

Skuldir fjármálafyrirtækja umfram eignir námu 7.040 milljörðum króna í árslok 2011 séu fjármálafyrirtæki í slitameðferð meðtalin, og hafði þó staða þeirra batnað um 857 milljarða króna á milli ára eða um 10,9%.

Fjáreignir erlendra aðila innan íslenska hagkerfisins námu 13.692 milljörðum króna í árslok 2011. Hreinar fjáreignir erlendra aðila á Íslandi voru í árslok 2011 9.343 milljarðar króna og höfðu rýrnað um 7,4% frá fyrra ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×