Viðskipti innlent

Sala á hlut ríkisins í bönkunum margrædd

Höskuldur Kári Schram skrifar
Björn Valur Gíslason formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Björn Valur Gíslason formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar Alþingis segir að viðræður um sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum eigi ekki að koma stjórnarandstöðunni á óvart. Ítarlega hafi verið fjallað um málið á Alþingi á undanförnum mánuðum.

Óformlegar viðræður eru nú í gangi milli lífeyrissjóðanna, erlendra kröfuhafa og stjórnvalda um sölu á hlut ríkisins í bönkunum. Þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafa sakað ríkisstjórnina um leynimakk og hafa óskað eftir fundi í efnahags-og viðskiptanefnd til að ræða málið.

Björn Valur Gíslason, formaður fárlaganefndar Alþingis, segir að þetta eigi ekki að koma stjórnarandstöðunni á óvart. „Þetta er búið að vera til umræðu meira og minna undanfarin ár. Fyrst þegar þetta var kynnt í tengslum við fjárfestingaáætlun stjórnvalda sem grundvallast að talsverðum hluta að því að selja eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum til að fjármagna þá áætlun. Síðan var þetta mikið til umræðu síðast í haust í tengslum við fjárlagagerð yfirstandandi árs," segir Björn Valur. Þá hafi fjárlaganefnd kallað til sín á fund fjármálaráðherra, bankastjóra og fleiri. Alþingi hafi svo sett sérstök lög á síðasta ári um sölumeðferð fjármálafyrirtækja til að tryggja gagnsæi. Þau lög hafi verið samþykkt eftir mikla og harða umræðu.

„Ég bara veit ekki hver staðan er nákvæmlega í söluferlinu. Það er Bankasýslan sem fer með eignarhlut ríkisins. Fjármálaráðherra er heimilt samkvæmt lögum sem voru samþykkt fyrir jól að vinna að sölu bankanna, selja þá að öllu leyti eða hluta til, en samkvæmt því sem Bankasýslan leggur upp með að verði gert og í samráði við þingnefndir," segir Björn Valur aðspurður um það hvort hægt sé að samþykkja söluna án þess að fyrir liggi samþykki Alþingis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×