Viðskipti innlent

Staða bankans mun verri en gögn gáfu til kynna

Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri bankans.
Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri bankans. Mynd úr safni.
Fyrirtaka var í morgun í skaðabótamáli slitastjórnar Landsbankans gegn Sigurjóni Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni, fyrrverandi bankastjórum bankans, Elínu Sigfúsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá bankanum, og síðan fjölmörgum alþjóðlegum tryggingarfélögum, þar á meðal Allianz og British Insurance, sem tryggðu kröfuhafa fyrir mistökum stjórnenda.

Slitastjórnin krefst alls 27 milljarða króna í skaðabætur vegna tjóns sem stjórnendur bankans eiga að hafa valdið bankanum með óábyrgri bankastarfsemi, annars vegar í tengslum við óveðtryggt lán til Straums skömmu fyrir fall Landsbankans og hins vegar vegna þess að ekki var gengið að ábyrgðartryggingu félagsins Grettis, sem var í eigu Björgólfs Guðmundssonar, stjórnarformanns bankans.

Við fyrirtöku í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, kom fram að alþjóðleg tryggingafélög telja sig ekki þurfa að greiða tryggingu, þar sem upplýsingar sem lágu til grundvallar, þegar tryggingarnar voru veittar, hafi ekki verið í samræmi við veruleikann. Þannig hafi staða Landsbankans verið mun verri en ársreikningur bankans í lok árs 2007 gaf til kynna, markaðsmisnotkun bankans hafi veikt hann mikið og önnur brotastarfsemi bankans sömuleiðis. Ekkert hefði legið fyrir um þetta, þegar samið var um tryggingarnar.

Mögulegt er að málin tefjist nokkuð fyrir dómstólum, þar sem sérstakur saksóknari er með málin sum sem um ræðir til rannsóknar vegna meintra lögbrota. Niðurstaða í þeim málum gæti haft áhrif á það hvernig dómurinn lítur til þeirra álitaefna sem uppi eru í skaðabótamálinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×