Viðskipti innlent

Gengi krónunnar á undir högg að sækja í vor

Reikna má með að gengi krónunnar eigi undir högg að sækja þegar kemur fram á vorið. Mikið útflæði verður þá á gjaldeyri frá opinberum aðilum.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að nýlegur samningur Kópavogsbæjar við Dexia bankann muni skapa minni þrýsting á krónuna á komandi vikum en annars hefði verið. Ástæðan er sú að bærinn hefur fengið framlengt allt að 20 milljónum evra af 35 milljóna evra láni sínu hjá bankanum fram á næsta haust.

Það sem er framundan hinsvegar eru háar greiðslur í gjaldeyri hjá Orkuveitunni og stór ríkisskuldabréfaflokkur sem er á gjalddaga í vor. Orkuveitan þarf að greiða um 10 milljarða kr. í gjaldeyri og vextirnir sem greiddir verða af skuldabréfunum nema um 6 milljörðum króna. Þá vaxtagreiðslu hafa erlendir eigendur bréfanna leyfi til að taka út í gjaldeyri framhjá gjaldeyrishöftunum.

Greiningin segir að þar að auki þurfi Seðlabankinn að láta til sín taka í gjaldeyriskaupum í sumar til að bæta upp gjaldeyrissöluna frá áramótum sem stutt hefur gengi krónunnar að undanförnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×