Viðskipti innlent

Ekki hægt að afnema verðtryggingu afturvirkt

Heimir Már Pétursson skrifar
Þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir að erfitt gæti verið að afnema verðtryggingu á þegar teknum lánum en flokkurinn hefur það sem eitt af aðalkosningamálum sínum að afnema verðtrygginguna. Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar sagði á Alþingi í morgun að Íslendingar þyrftu að læra af reynslunni og láta af séríslenskum lausnum eins og verðtryggingu. Hún hafi ekki skilað öðru en óförum í efnahagsmálum. Það væri fagnaðarefni að Framsóknarflokkurinn hefði tekið þetta mál upp með afgerandi hætti.

„Ég vildi þess vegna fá að spyrja háttvirtan þingflokksformann Framsóknarflokksins hvort flokkurinn sé þar með að boða afnám verðtryggingar bara í framtíðinni eða hvort flokkurinn ætli líka að afnema verðtryggingu á þeim lánum sem við erum þegar með," sagði Helgi Hjörvar.

Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Framsóknarflokksins sagði flokkinn staðráðinn í að koma böndum á verðtrygginguna og lagt fram fjölda tillagna í þeim efnum.

„Er hægt að afnema verðtrygginguna afturvirkt? Það er nákvæmlega það sem við verðum að skoða. Það hefur enginn sagt að það eigi að afnema verðtrygginguna af lánum afturvirkt," sagði Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Framsóknarflokksins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×