Viðskipti innlent

Leysa fyrst úr ágreiningi um bótaskyldu

KHN skrifar
Fyrirtaka í máli slitastjórnar Glitnis gegn fyrrum stjórnendum og eigendum Glitnis og Baugs fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Dómurinn féllst á kröfu stefndu um skiptingu sakarefnisins og að fyrst yrði flutt mál um bótaskyldu.

Slitastjórnin hefur stefnt níu fyrrverandi eigendum og stjórnendum Glitnis og Baugs til að greiða sex hálfan milljarð í skaðabætur en málið tekur til fimmtán milljarða króna víkjandi láns sem bankinn veitti Baugi í árslok tvö þúsund og sjö.

Með víkjandi láni er átt við lán sem mæta afgangi ef fyrirtæki geta ekki greitt öllum sem eiga kröfu á þau. Þannig eru þau áhættusamari fyrir lánveitendur en önnur lán.

Á meðal stefndu málinu eru Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Baugs og Lárus Welding fyrrverandi forstjóri Glitnis. Einnig er allri stjórn Glitnis á þessum tíma stefnt.

Slitastjórnin telur að að tjón Glitnis af láninu sé um sex og hálfur milljarður. Baugur nýtti lánið til að taka þátt í hlutafjárútboði FL Group.

Við fyrirtökuna í dag var lögð fram tillaga um skiptingu sakarefnisins, það er að að fyrst yrði flutt mál um bótaskyldu. Dómurinn féllst á þetta og var málinu frestað í kjölfarið. Gert er ráð fyrir að málflutningur fari fram í að loknu réttarhléi í haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×