Viðskipti innlent

CAOZ skapar 30 ný störf í teiknimyndagerð

Íslenska framleiðslufyrirtækið CAOZ gerði nýverið samning við norska fyrirtækið Animando um framleiðslu á 52 þáttum af teiknimyndaþáttunum um björgunarbátinn Elías.

Framleiðslan mun alfarið fara fram á Íslandi og áætlað er að hún taki 20 mánuði og mun CAOZ auka starfsmannafjöldann um 30 manns á tímabilinu. Jafnframt mun samstarf vera við fyrirtækið Jim Henson sem mun sjá um dreifingu þáttanna.

Í tilkynningu segtir að forsvarsmenn Animando komu til Íslands fyrir tilstuðlan Film in Iceland sem rekið er af Íslandsstofu og í gegnum þá komust þeir í samband við CAOZ.

,,Þetta er frábært tækifæri og gífurlega spennandi verkefni. CAOZ mun taka virkan þátt í endursköpun á efni þáttanna og jafnframt sjá um alla framleiðslu þeirra. Framleiðslan verður mikil lyftistöng fyrir íslenskan markað þar sem um 40 manns munu starfa við framleiðsluna næstu 20 mánuði," segir Arnar Gunnarsson hjá CAOZ í tilkynningunni.

,,Við erum bæði stolt og spennt yfir samstarfinu við CAOZ og því að framleiða efni á Íslandi. Noregur og Ísland deila bæði menningu og sögu og búa báðar þjóðir yfir mikilli sjómenningu og hafa svipaðar sögur að segja. Það voru bæði hæfileikar starfsfólksins sem og góður stuðningur stjórnvalda sem vógu þungt í ákvörðun okkar að koma til Íslands," segir Håkon Rekstad hjá Animando.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×