Körfuboltaáhugafólk á Íslandi getur hugsanlega sameinað ferð á NBA-körfuboltaleik og leik í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í haust því einn leikur á undirbúningstímabili NBA-deildarinnar mun fara fram í Manchester-borg.
NBA-deildin hefur tilkynnt að leikur Oklahoma City Thunder og Philadelphia 76ers verði spilaður í Manchester Arena 8. október næstkomandi. 8. október er fimmtudagur en helgina eftir fer síðan fram umferð í ensku úrvalsdeildinni.
Oklahoma City Thunder er eitt öflugasta lið NBA-deildarinnar og líklegt til afreka í úrslitakeppninni í ár en Thunder fór alla leið í lokaúrslitin á síðasta tímabili.
Philadelphia 76ers er í 9. sæti Austurdeildarinnar en þarf að vinna upp sjö leikja forskot Milwaukee Bucks til að komast í úrslitakeppnina í ár.
Það verða alls átta leikir á undirbúningstímabilinu spilaðir utan Bandaríkjanna í aðdraganda næsta tímabils.
Oklahoma City Thunder mætir Fenerbahce 5. október í Istanbul og daginn eftir spilar Philadelphia 76ers við Uxue Bilbao á Spáni. Houston Rockets og Indiana Pacers spila 10.október í Manilla á Filippseyjum og svo aftur 13. október í Tævan.
Golden State Warriors og Los Angeles Lakers mætast 15. október í Peking og þremur dögum síðar í Sjanghæ. Síðasti leikurinn er síðan á milli Chicago Bulls og Washington Wizards Rio de Janeiro í Brasilíu en hann fer fram 12. október.

