Viðskipti innlent

Nýja Facebook eins og dagblað

Facebook kynnti í dag fyrstu breytingar sínar á tímalínu samfélagsinsmiðilsins í tvö ár. Um töluverðar breytingar er að ræða.

Íslendingar eru engin undantekning þegar kemur að samfélagsmiðlinum Facebook. Fjölmargir kíkja á síðuna á degi hverjum og margir hverjir fylgjast með gangi mála þar daginn út og inn.

Myndræna lýsingu á breytingum má sjá hér. Þar má einnig setja sig á biðlista og flýta þannig fyrir að breytingarnar verði að veruleika hjá sér.

Mark Zuckerberg, stjórnarformaður og upphafsmaður Facebook, kynnti breytingar á síðunni fyrir blaðamönnum í dag. Hafði Zuckerberg á orði að með breytingum á tímalínunni, þ.e. því viðmóti þar sem notendur fylgjast með stöðufærslum, nýjum myndum og fleiru eftir að þeir skrá sig inn á síðuna, ætti síðan að verða eins og besta mögulega dagblað fyrir notendur sína.

Mark Zuckerberg kynnir breytingarnar,
Í máli Zuckerberg kom fram að um helmingur alls þess sem birtist á tímalínunni séu ljósmyndir en um 30 prósent sé stöðuuppfærslur. Í nýja viðmótinu, sem kalla mætti straumlínulaga, munu myndir njóta sína betur og taka meira pláss.

Þá mun fara meira fyrir möguleikum notenda á að finna nýja vini. Þegar notandi líkar við síðu eða eignast vin birtist lítil útgáfa af prófílmynd notandans.

Notendur munu geta brotið tímalínu sína niður í einingar og þannig aðeins fylgst með vinum, tónlist, ljósmyndum, leikjum eða öðrum þáttum. Ljósmyndir verða stærri og auðveldara um vik að leita að myndum í einstökum myndaalbúmum.

Kynning á nýju tímalínunni stendur yfir. Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá henni í textalýsingu fjölmargra miðla vestanhafs, t.d. á Usatoday.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×