Handbolti

Refirnir frá Berlin með magnaðan sigur á Barcelona

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Lærisveinar Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin gerðu sér lítið fyrir og lögðu stórlið Barcelona að velli, 31-30, í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag. Refirnir lögðu þar grunninn að því að geta náð öðru sæti D-riðils.

Leikurinn var æsispennandi og var Silvio Heinevetter hetja refanna frá Berlín í lokin þegar hann varði síðasta skot leiksins frá Siarhei Rutenka.

Heinevetter var frábær í marki Berlin en markverðir Barcelona náðu sér ekki á strik ef frá eru taldar fyrstu mínútur leiksins þar sem Danijel Saric fór á kostum.

Berlin er nú í öðru sæti D-riðils, með stigi meira en Dinamo Minsk og tveimur stigum á eftir Barcelona.

Ivan Nincevic var markahæstur hjá Berlin með 6 mörk. Barlomiej Jaszka, Evgeni Pevnov og Johannes Sellin skoruðu fimm mörk hver.

Tomas Gonzalez skoraði 8 mörk fyrir Barcelona og Rutenka skoraði sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×