Viðskipti innlent

Skúli Mogensen og fleiri vilja kaupa Íslandsbanka

Skúli Mogensen, fjárfestir og einn af eigendum MP Banka, á nú í viðræðum við slitastjórn og kröfuhafa Glitnis um að kaupa Íslandsbanka ásamt nokkrum öðrum fjárfestum.

Þetta herma heimildir DV en blaðið birtir frétt um málið í dag. Vísir hefur einnig fengið fréttirnar staðfestar frá heimildarmönnum sínum. Í DV segir að viðræðurnar séu, enn sem komið er, óformlegar.

„Fjárfestarnir sem renna hýru auga til Íslandsbanka ásamt Skúla eru nokkrir aðrir eigendur MP Banka, meðal annars Rowlands-fjölskyldan breska, en einnig aðrir fjárfestar sem ekki eru í eigendahópi MP Banka," segir á vefsíðu DV.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis staðfestir í samtali við RÚV að rætt hafi verið við hóp fjárfesta sem Framtakssjóður Íslands fer fyrir, um sölu á Íslandsbanka. Í fjárfestahópnum eru hluthafar í MP banka og hefur MP banki haft milligöngu í málinu.

Heildareignir bankans eru 813 milljarðar, en eigið fé er 140 milljarðar. Líklegt verðmat á bankanum er því um 100 milljarðar, en á þessari stundu liggur ekkert fyrir um það hversu stóran hluta í bankanum fjárfestarnir hafa áhuga á að kaupa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×