Viðskipti innlent

Hörður: Landsvirkjun vel fjármögnuð en þetta skiptir máli

Magnús Halldórsson skrifar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. vísir/vilhelm
Matsfyrirtækið Moody's hefur breytt horfum á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar úr neikvæðum í stöðugar. Hörður Arnarson forstjóri segir að þetta hjálpi til við að bæta aðgengi að erlendu lánsfé, en fyrirtækið sé þó ekki að fara sækja sér fé á alþjóðamörkuðum á næstunni.

Samsvarandi breyting á horfum átti sér stað hjá ríkissjóði Íslands þann 7. febrúar síðastliðinn þegar lánshæfiseinkunn var hækkuð. Í tilkynningu til Nasdaq OMX Kauphallar Íslands segir að breytingin á mati Moody´s endurspegli það, að dregið hafi úr óvissu sem fylgdi dómi EFTA-dómstólsins í Icesave málinu í janúar síðastliðnum og að almennt séu horfur í efnahagsmálum landsins betri nú en áður.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að Landsvirkjun þurfi ekki á erlendu lánsfé að halda eins og staðan er nú, en til framtíðar litið skipti það miklu máli að hafa gott aðengi að erlendu lánsfé.

„Landsvirkjun er ágætlega fjármagnað eins og staðan er nú, en til framtíðar litið þá skipta hærri lánshæfiseinkunnir máli fyrir fyrirtækið og auka líkur á að félagið sé alltaf örugglega og vel fjármagnað," segir Hörður.

Hörður segir Landsvirkjun sé alltaf að vinna að því að bæta aðgengi að lánsfjármörkuðum erlendis, en þeir hafa verið svo gott sem lokaðir fyrir íslenskum fyrirtækjum allt frá hruni fjármálakerfisins haustið 2008. Hörður segir lánsfjárþörfina hanga saman við framkvæmdir fyrirtækisins.

„Þörfin fyrir lánsfé er ekki fyrir hendi nú, en það fer eftir framkvæmdastiginu hvernig Landsvirkjun þarf vera fjármagnað á hverjum tíma. Eins og mál standa nú er fyrirtækið vel fjármagnað miðað þær framkvæmdir sem eru á teikniborðinu, eða í gangi," segir Hörður.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×