Handbolti

Ólafur og félagar komnir á toppinn í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Gústafsson.
Ólafur Gústafsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Ólafur Gústafsson og félagar hans í þýska liðinu Flensburg-Handewitt eru komnir upp í efsta sætið í sínum riðli í Meistaradeildinni í handbolta eftir átta marka heimasigur á serbneska félaginu Partizan Belgrad í kvöld, 31-23.

Flensburg er með tólf stig eins og bæði Chekhovskiye Medvedi og HSV Hamburg sem gerðu 29-29 jafntefli í hinum leik riðilsins fyrr í dag. Flensburg er með bestan árangur í innbyrðisleikjum þessara þriggja liða en Medvedi er þar með slakasta árangurinn.

Ólafur skoraði eitt mark í leiknum en það tók hann aðeins nokkrar sekúndur að skora sitt fyrsta mark þegar hann kom inn í leikinn í fyrri hálfleiknum og kom Flensburg í 12-10.

Flensburg-liðið var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17-13 eftir að staðan var 13-13 fimm mínútum fyrir hálfleik. Flensburg stakk síðan endanlega af í byrjun seinni hálfleiksins.

Arnór Atlason er að ná sér af hásinarmeiðslum og gat því ekki spilað með Flensburg en hann var með á bekknum og veitti þjálfaranum Ljubomir Vranjes góð ráð.

Danirnir Anders Eggert og Lasse Svan Hansen voru markahæstir hjá Flensburg, Eggert með sjö mörk en Hansen með fimm mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×