Viðskipti innlent

Jón Ágúst hættir sem forstjóri Marorku - verður stjórnarformaður

Magnús Halldórsson skrifar
Jón Ágúst Þorsteinsson, stofnandi Marorku. Hann er nú orðinn stjórnarformaður fyrirtækisins, og tekur við því starfi af Þórði Magnússyni.
Jón Ágúst Þorsteinsson, stofnandi Marorku. Hann er nú orðinn stjórnarformaður fyrirtækisins, og tekur við því starfi af Þórði Magnússyni.
Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, stofnandi Marorku og forstjóri félagsins frá upphafi, hefur tekið við stjórnarformennsku af Þórði Magnússyni, stjórnarformanni Eyris Invest, sem verið hefur stjórnarformaður félagsins frá árinu 2004 en hann situr áfram í stjórn félagsins sem er að öðru leyti óbreytt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Marorku.

„Marorka er í dag í fremstu röð fyrirtækja í heiminum í þróun og sölu á tölvustýrðum búnaði til að bæta orkubúskap einstakra skipa sem og skipaflota. Jón Ágúst mun leiða áframhaldandi uppbyggingu félagsins og enn frekari sókn inn á erlenda markaði. Jón Ágúst lætur á sama tíma af störfum sem forstjóri félagsins en Dr. Bjarki A. Brynjarsson, sem starfað hefur með félaginu undanfarna mánuði mun gegna starfi forstjóra þar til nýr verður ráðinn. Ofangreindar breytingar tóku gildi 1. janúar 2013," segir í tilkynningunni.

Grunnurinn að Marorku var lagður 1997 þegar Jón Ágúst hóf rannsóknir á hvernig hægt væri að beita stærðfræðilegri aðferðafræði við samþættingu orkukerfa. Marorka var síðan formlega stofnuð árið 2002 til þess að þróa á grundvelli þessara rannsókna hugbúnað og stjórnkerfi til að hámarka orkunýtingu skipa.

„Fyrirtækið hefur náð að skapa mjög samkeppnishæfa vöru og byggt upp sterka innviði til að gera viðskiptavinum félagsins kleift að bæta orkunýtingu og minnka mengun frá útblæstri skipa. Í dag er félagið leiðandi á sviði orkustjórnunar í skipum og hafa kerfi og lausnir Marorku verið sett upp í skipum og hjá fyrirtækjum um víða veröld. Nær allar tekjur félagsins koma erlendis frá og nú starfa hjá félaginu um 50 manns," segir í tilkynningunni.

Jón Ágúst segir í tilkynningu að fyrirtækið hafi vaxið hratt og geti náð miklum árangri til framtíðar litið. „Marorka starfar á markaði sjálfbærar tækni og orkustjórnunar sem er sú grein atvinnulífs í heiminum sem hefur vaxið hvað hraðast að undanförnu í skugga alþekktra erfiðleika í heimsviðskiptum. Þar eru mikil tækifæri fyrir þekkingarfyrirtæki á borð við Marorku sem býr að góðu, vel menntuðu og reyndu starfsfólki. Ég lít á það sem hlutverk mitt að leiða hið öfluga teymi Marorku á þróun á vörum og þjónustu fyrirtækisins í lifandi samstarfi við viðskiptavini, stjórnvöld og samtök hvar sem er í heiminum".

Þórður Magnússon, fráfarandi stjórnarformaður, segir að Marorka geti orðið öflugt fyrirtæki á alþjóðamarkaði. „Marorka hefur allt til að bera til að verða öflugt fyrirtæki á alþjóðamarkaði. Ég er mjög stoltur af því að hafa komið Marorku á legg með því frábæra starfsfólki sem þar er og öðrum eigendum félagsins. Nú er þeim áfanga náð að félagið er komið í traustan rekstur og það hefur þróað góða vöru sem mikil og vaxandi eftirspurn er eftir, henni þarf að svara. Á þessu ári verður markvisst unnið að því að byggja félagið áfram upp og breyta því úr alþjóðlegu tæknifyrirtæki sem náð hefur miklum árangri í alþjóðlegt markaðsdrifið tæknifyrirtæki með starfsemi bæði á meginlandi Evrópu og í Asíu. Það eru því tímamót í þroskasögu Marorku. Fyrirtækinu bíða nú mikil verkefni því markaður fyrir sjálfbærar lausnir sem vinna að bættri nýtingu á orku og minni mengun stækkar hratt og Marorka hefur alla burði til þess að tryggja leiðtogahlutverk sitt á þessum markaði. Ég hlakka til að starfa áfram í stjórn fyrirtækisins að þessum verkefnum á markaði sem er síbreytilegur og sífellt eru kynntar til leiks leiðir og lausnir sem eiga að valda þáttaskilum. Það er því nauðsynlegt fyrir viðgang Marorku og framtíðarvöxt að hafa skýra sýn á hlutverk sitt og stöðu á kvikum og kappsfullum alþjóðlegum markaði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×