Handbolti

Slóvenar lögðu Rússa í mögnuðum leik

Úr leik liðanna í dag.
Úr leik liðanna í dag.
Slóvenar urðu í kvöld fyrstir til þess að tryggja sig inn í undanúrslit HM. Slóvenar lögðu þá Rússa, 28-27, í hörkuleik. Þetta er í fyrsta skipti sem Slóvenar komast í undanúrslit.

Rússarnir byrjuðu leikinn mun betur og náðu mest fimm marka forskoti, 10-5, í fyrri hálfleik. Slóvenar komu til baka og leiddu með einu marki í leikhléi, 14-13.

Slóvenar gáfu ekkert eftir í síðari hálfleik og styrktu tak sitt á leiknum. Ólseigir Rússar neituðu að gefast upp þó svo þeir væru búnir að missa tvo menn af velli með rautt spjald.

Þeir minnkuðu muninn í eitt mark, 24-25, er átta mínútur voru eftir af leiknum. Þeir misstu svo þriðja manninn af velli með rautt spjald er þrjár mínútur voru eftir. Þá voru leikmenn Rússa búnir að vera af velli í 22 mínútur gegn 8 mínútum Slóvena.

Slóvenar voru marki yfir og manni færri er mínúta var eftir. Þeim tókst að skora á ævintýralegan hátt og tryggja sér afar sætan sigur.

Slóvenar mæta sigurvegaranum í leik Spánar og Þýskalands í undanúrslitum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×