Handbolti

Króatar slógu heimsmeistarana úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Króatar fagna í kvöld.
Króatar fagna í kvöld. Nordic Photos / AFP
Heims- og Ólympíumeistarar Frakklands eru úr leik á HM í handbolta eftir að hafa tapað fyrir sterku liði Króatíu í fjórðungsúrslitum í kvöld, 30-23.

Króatía hafði eins marks forystu í hálfleik, 13-12, og var skrefi á undan allan leikinn. Króatía gerði svo út um leikinn á síðasta stundarfjórðungnum með því að skora tíu af fjórtán síðustu mörkunum.

Domagoj Duvnjak skoraði níu mörk fyrir Króatíu og átti frábæran leik. Cedric Soirhando skoraði fimm mörk fyrir Frakka en sterk vörn Króatíu héldu öflugum sóknarmönnum Frakklands niðri í kvöld. Nikola Karabatic skoraði til að mynda að eins eitt mark í leiknum.

Króatía mætir Danmörku í undanúrslitum á föstudagskvöldið og hefst leikurinn klukkan 20.30. Það má vera ljóst að þarna fara tvö af allra bestu liðum heims í dag og verður sjálfsagt hart barist.

Gestgjafar Spánar taka svo á móti spútnikliði Slóveníu í hinni undanúrslitaviðureigninni á föstudag og hefst hún klukkan 17.15. Báðir leikirnir verða sýndir beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×