Handbolti

Wilbek: Tek hattinn ofan fyrir króatíska þjálfaranum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ulrik Wilbek, þjálfari Dana.
Ulrik Wilbek, þjálfari Dana. Mynd/AFP
Danmörk og Króatía mætast í kvöld í seinni undanúrslitaleiknum á HM í handbolta á Spáni en í hinum leiknum spila Spánverjar og Slóvenar. Ulrik Wilbek, þjálfari Dana, hrósaði Slavko Goluza, þjálfara Króatíu, fyrr sitt starf.

„Ég get tekið hattinn ofan fyrir honum og því sem hann hefur gert með þetta lið. Ég ber mikla virðingu fyrir því hvernig hann hefur komið króatíska liðinu í toppform því þar liggur greinilega góð og fagmannlega vinna að baki," sagði Ulrik Wilbek við Ekstrabladet.

Þetta er fyrsta stórmót Króata án Ivano Balić en liðið vann brons á báðum stórmótum síðasta árs, fyrst á EM í Serbíu og svo á Ólympíuleikunum í London. Slavko Goluza tók við landsliðinu af Lino Cervars í júlí 2010 og hefur verið að yngja upp liðið.

„Hann hefur innleitt nýja tíma í króatískan handbolta og þar er mest áberandi líkamlegt form liðsins. Króatar hafa oft gefið mikið eftir í seinni hálfleik en svo er ekki lengur," sagði Wilbek.

Króatar hafa unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum liðanna á stórmótum þar á meðal 11 marka sigur, 32-21, í riðlakeppni síðustu Ólympíuleika og 26-24 í átta liða úrslitunum á ÓL 2008.

„Króatar eru sigurstranglegri í þessum leik," sagði Wilbek.

Leikur Danmerkur og Króatíu hefst klukkan 20.30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD. Leikur Spánar og Slóveníu hefst klukkan 18.15 og er líka sýndur á Stöð 2 Sport HD. Þorsteinn J og gestir verða síðan í loftinu klukkan 22.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×