Handbolti

Wilbek vill færa bronsleikinn aftur yfir á sunnudag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen spilar varla tvo leiki með 20 tíma millibil enda slæmur í hné.
Mikkel Hansen spilar varla tvo leiki með 20 tíma millibil enda slæmur í hné. Mynd/AFP
Ulrik Wilbek, þjálfari danska landsliðsins, er ekki sáttur við þá breytingu á skipulagi HM í handbolta að bronsleikurinn fari nú fram á laugardegi í stað sunnudags.

Danir mæta Króötum í seinni undanúrslitaleik keppninnar í kvöld en á undan mætast Spánverjar og Slóvenar. Leikur Dana og Króatíu lýkur ekki fyrr en klukkan 23.30 í kvöld að staðartíma eða aðeins nítján tímum áður en bronsleikurinn hefst.

Á blaðamannafundi fyrir undanúrslitaleikina í gær þá hitti Ulrik Wilbek Dr. Hassan Moustafa, forseta IHF, og á fundinum talaði hann fyrir því að bronsleikurinn yrði aftur færður yfir á sunnudag.

„Það er mjög skrýtin ákvörðun að færa bronsleikinn allt í einu yfir á laugardaginn. Það er mjög erfitt fyrir þau lið sem tapa undanúrslitaleiknum kvöldið áður. Seinni undanúrslitaleikurinn klárast ekki fyrr en 23.30 og tapliðið þarf bæði að sleikja sárin sem og að undirbúa sig fyrir annan leik sem hefst innan við 20 tímum síðar," sagði Ulrik Wilbek og bætti við:

„Leikmenn þurfa að nærast og hvíla sig til þess að ná upp orku fyrir næsta leik. Það tekur allt sinn tíma. Við munum leggja það til að bronsleikurinn verður aftur færður yfir á sunnudag," sagði Wilbek.

Wilbek vill einnig taka upp milliriðlana á ný en sú breyting var gerð á HM í ár að liðin fóru beint inn í útsláttarkeppnina eftir riðlakeppnina og gátu verið úr leik eftir aðeins einn leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×