Handbolti

Spánverjar spila um gullið á heimavelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Spánn komst í kvöld í úrslitaleik HM í handbolta eftir sigur á Slóveníu í fyrri undanúrslitaleik kvöldsins í Barcelona, 26-22.

Mestu munaði um frábæran varnarleik Spánverja í síðari hálfleik og ekki síður markvörslu Arpad Sterbik, sem byrjaði reyndar á bekknum í dag.

Staðan í hálfleik var 13-12, Spánverjum í vil. Spánverjar byrjuðu leikinn betur en Slóvenar áttu sinn langbesta kafla í lok síðari hálfleiks og minnkuðu þá muninn í eitt mark.

Slóvenar áttu svo ekkert svar við frábærum varnarleik Spánverja í síðari hálfleik en Slóvenía skoraði aðeins tvö mörk á fyrstu átján mínútum hálfleiksins.

Spánverjar komust mest átta mörkum yfir og var sigur þeirra aldrei í hættu. Allir útileikmenn Spánverja skoruðu í leiknum nema einn en markahæstur var Joan Canellas með fimm mörk.

Langbesti maður Slóvena í leiknum var Gasper Marguc með sjö mörk. Jure Dolenec skoraði sex mörk en hann var mistækur eins og aðrir í slóvenska liðinu.

Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson dæmdu leikinn og komust mjög vel frá verkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×