Handbolti

Spánverjinn Victor Tomas: Mikil pressa á okkur í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Tomas fagnar með Arpad Sterbik markverði.
Victor Tomas fagnar með Arpad Sterbik markverði. Mynd/Nordic Photos/Getty
Spánverjar og Danir leika í kvöld til úrslita á HM í handbolta á Spáni en Spánverjar geta þá bæst í hóp með þýska landsliðinu frá 2007 sem einu gestgjafarnir sem hafa náð því að fara alla leið og verða Heimsmeistarar.

Danskur blaðamaður á Ekstrablaðinu spurði spænska hornamanninn Victor Tomas út í pressuna sem er á spænska landsliðinu í úrslitaleiknum.

„Það er mikil pressa á okkur en þetta er góð pressa. Spænskir fjölmiðlamenn spyrja okkur stanslaust um það hvort við ætlum ekki að taka gullið en við vitum mikilvægi þess að vinna HM því spænskur handbolti þarf virkilega á þessum titli að halda," sagði Victor Tomas.

Victor Tomas er einn af fjölmörgum leikmönnum liðsins sem spilar með Barcelona-liðinu og þekkir því vel tiol í Sant Jordi höllinni í Barcelona.

„Við vonum að við getum unnið. Við höfum mikla trú á okkur en vitum jafnframt að Danir eru með gott lið. Það er allt opið í þessum úrslitaleik og þetta verður flott handboltasýning," sagði Victor Tomas.

Danir mæta Spánverjum í úrslitaleik HM klukkan 16.15 í dag og leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×