Handbolti

Danir búnir að vinna fimm síðustu leiki á móti Spánverjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Spánverjar og Danir leika í kvöld til úrslita á HM í handbolta á Spáni og eiga Danir þá möguleika á því að bæta Heimsmeistaratitlinum við Evrópumeistaratitilinn sem þeir unnu í Serbíu fyrir ári síðan.

Danir ættu að vera með gott tak á Spánverjum ef marka má úrslitin í síðustu leikjum þeirra við Spánverja. Danir hafa nefnilega unnið fimm leiki í röð á móti Spáni á HM, EM eða ÓL.

Danir töpuðu síðast fyrir Spánverjum á stórmóti í undanúrslitum á EM í Sviss 2006 (31-34). Þeir unnu spænska liðið með eins marks mun bæði í riðlakeppninni á ÓL (24-23) í London sem og í undanúrslitunum á EM í Serbíu (25-24).

Danir unnu Spánverja einnig í undanúrslitunum á HM í Svíþjóð 2011 (28-24) sem og í leiknum um fimmta sætið á EM í Austurríki 2010 (34-27) og í milliriðli á HM í Þýskalandi 2007 (27-23).

Danir hafa aldrei orðið Heimsmeistarar (2. sæti á HM 1967 og HM 2011) en Spánverjar unnu sinn fyrsta og eina Heimsmeistaratitil í Túnis 2005 þegar þeir lögðu Króata 40-34 í úrslitaleiknum.

Danir mæta Spánverjum í úrslitaleik HM klukkan 16.15 í dag og leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×