Handbolti

Langstærsti sigur í úrslitaleik HM frá upphafi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Spánverjar settu nýtt met með því að vinna sextán marka sigur á Dönum, 35-19, í úrslitaleik HM í handbolta í Barcelona í kvöld. Þetta er langstærsti sigur liðs í úrslitaleik HM í handbolta frá upphafi.

Spánverjar bættu gamla metið um heil sex mörk en það var síðan í úrslitaleik á HM í Austur-Þýskalandi 1958 þegar Svíar burstuðu Tékka 22-12.

Danir töpuðu einnig úrslitaleiknum á HM fyrir tveimur árum en þá töpuðu þeir með tveimur mörkum á móti Frökkum, 35-37, eftir framlengdan leik.

Spánverjar hafa unnið báða úrslitaleiki sína á HM og sigurinn á Króötum á HM í Túnis 2005 skipar fjórða sætið yfir stærstu sigra í úrslitaleikjum HM.

Stærstu sigrar í úrslitaleik HM í handbolta

+16 - Spánn-Danmörk 35-19 á HM 2013

+10 - Svíþjóð-Tékkóslóvakía 22-12 á HM 1958

+9 - Rússland - Frakkland 28–19 á HM 1993

+6 - Spánn - Króatía 40-34 á HM 2005

+5 - Þýskaland - Pólland 29-24 á HM 2007

+5 - Frakkland - Króatía 24-19 á HM 2009




Fleiri fréttir

Sjá meira


×