Handbolti

Söguleg rasskelling hjá Spánverjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjar eru heimsmeistarar í handbolta 2013 eftir sextán marka sigur á Dönum, 35-19, í úrslitaleik í Barcelona í dag. Þetta er í annað skiptið sem Spánn verður heimsmeistari en liðið vann einnig titilinn á HM í Túnis 2005.

Spánverjar skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins og gerðu síðan nánast út um hann með því að vinna tíu síðustu mínútur fyrri hálfleiksins 9-2 og vera komast átta mörkum yfir fyrir hálfeik, 18-10. Danir skoruðu síðan aðeins eitt mark á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks og á meðan breyttu Spánverjar stöðunni úr 18-10 í 26-11.

Það er sama hvar er litið í tölfræðina því yfirburðir spænska liðsins voru algjörir. Þeir skoruðu mun fleiri mörk með langskotum (12 á móti 9), fleiri hraðaupphlaupsmörk (7 á móti 1) og fleiri af línu (8 á móti 2). Danir nýttu aðeins 40 prósent skota sinna og töpuðu að auki 17 boltum. Spánverjar voru hinsvegar með 64 prósent skotnýtingu í leiknum.

Í lokaþætti Þorsteins Joð og gesta á Stöð 2 Sport í kvöld var sýnt myndband með svipmyndum frá úrslitaleik HM í handbolta í kvöld en enginn hafði búist við slíkum stórsigri hjá Spánverjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×