Handbolti

Wilbek var veikur | Hafði ekki sofið í tvo daga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wilbek brosti þegar að Mary, krónprinsessa Dana, afhenti honum silfurverðlaunin í gær.
Wilbek brosti þegar að Mary, krónprinsessa Dana, afhenti honum silfurverðlaunin í gær. Nordic Photos / Getty Images
Ulrik Wilbek segir að ástæðan fyrir því að hann mætti ekki á blaðamannafund eftir úrslitaleik HM í handbolta í gær hafi verið vegna veikinda hans.

Wilbek var gagnrýndur af landsliðsþjálfara Spánar fyrir að mæta ekki á fundinn en danska handboltasambandið sendi svo frá sér tilkynningu um veikindi Wilbek. Hann staðfesti það svo sjálfur í viðtölum við danska fjölmiðla í dag.

„Ég beið í eina klukkustund og á þeim tíma reyndum við að komast að því hvenær blaðamannafundurinn myndi byrja," sagði Wilbek en Danir töpuðu úrslitaleiknum með sextán marka mun, 35-19.

„En við fengum ekkert að vita um það. Eftir klukkutíma fór ég aftur á hótelið með lækni liðsins. Ég varð að fara í burtu. Mér leið virkilega illa og hafði þá ekki sofið í tvo daga."

Wilbek ræddi stuttlega við danska fjölmiðlamenn eftir leikinn í gær, áður en hann fór upp á hótel. „Þið getið ekki spurt mig hvort það hefði eitthvað mátt gera öðruvísi, því það var ekki hægt," sagði Wilbek.

„Við áttum ekkert svar við sóknarleik þeirra og gerðum sjálfir mörg heimskuleg mistök í okkar sóknarleik. Þetta var hræðilegt. Maður stóð og beið eftir því að leikurinn kláraðist. Það skipti engu hvað ég gerði - þeir hentu boltanum frá sér um leið."

„Þetta var mín langversta upplifun á handboltavellinum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×