Handbolti

Rússland og Makedónía gerðu jafntefli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Makedóníumenn náðu 29-29 jafntefli á móti Rússum í fyrsta leiknum í okkar riðli í dag á HM í handbolta á Spáni en Goce Georgievski tryggði Makedóníu stig þegar hann jafnaði leikinn 20 sekúndum fyirr leikslok.

Rússar fengu síðustu sóknina í leiknum en spiluðu boltanum bara á milli sín á meðan að leiktíminn rann út. Rússar og Makedóníumenn hafa nú bæði fimm stig þegar ein umferð er eftir.

Kiril Lazarov reif sig upp eftir slakan leik á móti Íslandi og skoraði tíu mörk. Stojanche Stoilov og Dejan Manaskov skoruðu báðir fimm mörk. Timur Dibirov var markahæstur hjá Rússum með átta mörk og Sergei Gorbok skoraði sex mörk.

Rússar voru með frumkvæðið stærsta hluta leiksins. Þeir komust í 6-3 yfir í upphafi en Makedónía átti góðan sprett um miðjan hálfleikinn sem skilaði liðinu 12-10 forystu. Rússar unnu síðustu tíu mínútur hálfleiksins hinsvegar 6-1 og voru yfir í hálfleik 16-13.

Rússar náðu mest sex marka foraskoti í seinni hálfleik (21-15) og virtust vera að landa öruggum sigri en Makedóníumenn gáfust ekki upp og tókst að vinna upp muninn á síðustu mínútum leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×