Handbolti

Danir áfram þrátt fyrir hrun í seinni hálfleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mikkel Hansen í leiknum í kvöld.
Mikkel Hansen í leiknum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Frábær fyrri hálfleikur dugði til að tryggja Danmörku sigur gegn Ungverjum, 28-26, í fjórðungsúrslitum HM í handbolta á Spáni í kvöld.

Danir náði snemma afgerandi forystu í leiknum og leiddu í hálfleik með sjö marka mun, 18-11. Flestir voru búnir að afskrifa Ungverja sem náðu að hleypa mikilli spennu í leikinn á lokamínútunum.

Ungverjar söxuðu á forystuna, jafnt og þétt, þar til að munurinn varð orðinn eitt mark og ein mínúta til leiksloka. Henrik Möllegaard, spútnikleikmaður Dana úr mótinu, fór þá óvænt inn úr horninu í þröngri stöðu og skoraði markið sem tryggði Dönum sigurinn.

Niklas Landin átti frábæran fyrri hálfleik og varði alls sextán skot í leiknum. Markahæstur hjá Dönum var Hans Lindberg með tíu mörk en hann var útnefndur maður leiksins. Hjá Ungverjum skoraði Laszlo Nagy átta mörk.

Danir mæta sigurvegaranum úr leik Frakka og Króata í undanúrslitunum á föstudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×