Viðskipti innlent

Verðlag á Íslandi hækkar langt umfram verðlag í Evrópu

Verðlag á Íslandi hækkaði langt umfram verðlag í helstu viðskiptalöndum okkar í febrúar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að Í febrúar hækkaði raungengi íslensku krónunnar um 2,3% frá fyrri mánuði. Er þetta í fyrsta sinn síðan í ágúst í fyrra sem raungengi krónunnar hækkar á milli mánaða.

Undir eðlilegum kringumstæðum ætti gengisstyrkingin að lækka vöruverð en það gerðist alls ekki.

Í Morgunkorninu segir að hækkun verðlags hér á landi í febrúar hafi augljóslega verið langt umfram hækkun verðlags í okkar helstu viðskiptalöndum í mánuðinum, enda var breytingin á raungengi krónunnar verulega umfram breytinguna á nafngengi hennar.

Miðað við vísitölu neysluverðs hækkaði verðlag hér á landi um rúm 1,6% í febrúar frá fyrri mánuði, sem var mun meiri hækkun en greiningin, sem og aðrir sem birta verðbólguspár opinberlega, höfðu reiknað með.

Í raun hefur vísitala neysluverðs ekki hækkað svo mikið í einum mánuði síðan í nóvember árið 2008 og þá eftir mikla lækkun á gengi krónunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×