Viðskipti innlent

Tilnefnd til Íslensku þekkingarverðlaunanna

Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga hefur tilnefnt Bláa lónið, Icelandair Group og Truenorth til Íslensku þekkingarverðlaunanna fyrir árið 2012.

Fyrirtækin þrjú voru valin af félagsmönnum FVH og dómnefnd sem heimsótti nokkur fyrirtæki og urðu þessu þrjú fyrir valinu. Dómnefndin er skipuð valinkunnum sérfræðingum úr íslensku viðskiptalífi að því er segir í fréttatilkynningu frá FVH.

Yfirskrift Íslensku þekkingarverðlaunanna 2012 er „Bættur árangur í breyttu umhverfi". Við valið var haft til hliðsjónar hvernig framtíðarsýn, stefna og gildi fyrirtækisins endurspeglist í þeim árangri sem fyrirtækið hefur náð á undanförnum árum.

Einnig var horft til samfélagslegrar ábyrgðar og góðra stjórnarhátta. Mælanlegur árangur á borð við fjárhagslega frammistöðu, ánægju viðskiptavina, skilvirkni í innri ferlum og árangur í mannauðsmálum var einnig skoðaður að því er segir í fréttatilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×