Lífið

Stöðvaður fyrir hraðakstur á leið í rallí

Sara McMahon skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson keppti ásamt Sögu Garðarsdóttur í rallí fyrir sjónvarpsþáttinn Á fullu gazi.
Guðlaugur Þór Þórðarson keppti ásamt Sögu Garðarsdóttur í rallí fyrir sjónvarpsþáttinn Á fullu gazi. Fréttablaðið/Valli
„Þetta var alveg hrikalega gaman. Ég er ekki mikill rallímaður en ég sagði já á staðnum þegar haft var samband við mig, bæði hljómaði þetta mjög spennandi og svo er erfitt að segja nei við Finn [Thorlacius],“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður sem keppti nýverið í rallíi ásamt öðrum þjóðþekktum einstaklingum. Keppnin er hluti af sjónvarpsþættinum Á fullu gazi sem sýndur verður á Stöð 2 í nóvember. Þáttastjórnendur eru Finnur Thorlacius og Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir.

Leikkonan Saga Garðarsdóttir var liðsfélagi Guðlaugs Þórs í keppninni, en hvert lið var skipað tveimur einstaklingum. Saga var aftur á móti eini keppandinn sem ekki er með ökuréttindi. „Það var gaman að kynnast Sögu og áhugavert að sitja með henni bíl. Hún stóð sig með ágætum, en hringurinn var þó ekki tíðindalaus, eins og mun koma fram í þáttunum.“ Hann bætir við: „Það sem mér þótti erfiðast við rallíaksturinn var að halda einbeitingunni. Þegar maður þarf að keyra brautina nokkrum sinnum verður þetta ansi lýjandi.“

Á leið sinni á rallímótið var Guðlaugur Þór stöðvaður af lögreglu og sektaður fyrir of hraðan akstur. Spurður út í atvikið segir þingmaðurinn það vandræðalegt. „Mér var sagt að mæta stundvíslega klukkan níu á laugardagsmorgni. Ég var svolítið seinn fyrir og flýtti mér um of. Ég get upplýst það að lögreglumenn hanga ekki í morgunkaffi á laugardagsmorgnum, heldur eru komnir strax til vinnu,“ segir hann.

Fékk þetta farsælan endi? „Það fer eftir því hvernig þú skilgreinir orðið „farsæll“. Ég veit ekki hvort það sé nokkru sinni farsælt að vera tekinn fyrir of hraðan akstur,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.