Oddur Gretarsson, hornamaður Akureyrar, meiddist á hné eftir aðeins átta mínútur í tapleiknum á móti Haukum á laugardaginn og var borinn af velli sárþjáður.
„Ég fer í nánari skoðun á morgun og þá ætti þetta að koma betur í ljós. Það var ekki möguleiki að fá tíma fyrr en þá," sagði Oddur við Vísi í dag en í fyrstu var búist við að hann kæmist í myndastöku í dag.
Það tókst hinsvegar ekki og er Oddur því á leiðinni í myndatöku og frekari skoðun í hádeginu á morgun.
„Það lítil bólga í þessu fyrst en svo bólgnaði þetta aðeins upp í gær en það var ekki mikið. Ég vona bara það besta," sagði Oddur.
„Þetta var mesti sársauki sem ég hef fundið í svona langan tíma. Ég yrði ánægður ef ég væri kominn af stað í fyrstu leiki eftir áramót. Ég veit ekki hvað þetta er og veit því ekki hversu lengi ég verð að ná mér," sagði Oddur.

