Viðskipti innlent

Töluverð söluaukning raftækja í jólaösinni

Helstu breytingar sem urðu á jólaversluninni fyrir nýliðin jól í samanburði við jólaverslunina 2010 var töluverð aukning í sölu raftækja og smávægilegur samdráttur í fataverslun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Að öðru leyti virðast landsmenn hafa keypt álíka mikið og fyrir síðustu jól og fyrir jólin þar áður. Þannig var verslun með dagvöru sambærileg og árið áður að magni til þó hún hafi aukist um 6,5% í krónutölu vegna verðhækkana.

Þrátt fyrir að áfengisgjald hafi hækkað um 5,1% um áramótin varð það ekki til þess salan ykist síðustu daga ársins. Þvert á móti dróst sala áfengis í lítrum talið saman um 7% dagana 27. – 31. desember frá sama tíma árið áður samkvæmt tilkynningu ÁTVR.

Verslun í desember endurspeglar að miklu leyti þá þróun sem varð í smásöluverslun þegar horft er til alls ársins 2011 miðað við árið 2010. Velta dagvöruverslunar 2011 jókst um 2% frá árinu áður á föstu verðlagi og áfengisverslun dróst saman um 2,3%. Á árinu dróst fataverslun saman um 6,1% á meðan húsgagnaverslun jókst um 11,5% og raftækjaverslun jókst um 17,4% frá árinu áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×