Halldór J. Kristjánsson, sem var bankastjóri Landsbankans við hlið Sigurjóns Þ. Árnasonar, óskaði eftir að láta af störfum hjá bankanum í ágúst 2008, rétt fyrir hrunið, en ákvað að vera áfram gegn 125 milljóna króna greiðslu. Sigurjón Þ. Árnason, fékk þá sömu greiðslu, sem fór beint í einkalífeyrissjóð hans hjá bankanum.
Þessar upplýsingar komu fram við aðalmeðferð máls sem Sigurjón höfðaði gegn Landsbankanum í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, en Sigurjón krefst viðurkenningar á samningi milli hans og Landsbankans um lífeyrissparnað og afhendingar á skuldabréfum sem keypt voru fyrir þennan sama sparnað. Í málinu var tekist á um lögmæti lífeyrissjóðs Sigurjóns, en hann færði sparnað sinn frá Íslenska lífeyrissjóðnum í lífeyrissjóð sem hann stofnaði í eigin nafni í apríl 2008. Þessi viðskipti Sigurjóns komust í fréttirnar fyrir þær sakir að hann gaf út tvö veðskuldabréf, samtals að fjárhæð 70 milljónir króna, í nóvember 2008, sem hann seldi svo eigin lífeyrissjóði. Það vakti athygli eftirlitsaðila sem gerðu í kjölfarið athugasemdir, en FME krafðist þess að Landsbankinn myndi slíta lífeyrissjóðnum þar sem hann gengi í berhögg við lög. Þessu hefur lögmaður Sigurjóns andmælt.
Á þremur árum, frá apríl 2008 til september 2011, hækkaði lífeyrissparnaður Sigurjóns úr 108 milljónum í 566 milljónir króna, miðað við upplýsingar sem komu fram við aðalmeðferð málsins í morgun. Stór hluti hækkunarinnar er til kominn vegna gengishagnaðar, en Sigurjón keypti skuldabréf í erlendri mynt, aðallega evrum, í rússneska olíurisanum Gazprom og orkufyrirtækinu TAQA frá Abú Dabí í ágúst 2008 og losaði sig þannig við sparnað í krónum. Þá fékk hann greiðslur, nálægt 200 milljónum króna, frá Landsbankanum, sem hann setti beint í lífeyrissparnað sinn, en um var að ræða áunnin samningsbundin réttindi.
Sjá hlekk á ítarlega fréttaskýringu um málið hér neðar. thorbjorn@stod2.is

