Viðskipti innlent

Skuldir Kópavogs samsvara 1,3 milljónum á hvern íbúa

Skuldir Kópavogsbæjar nema rétt tæpum 40 milljörðum króna. Þetta samsvarar því að hver íbúi bæjarins skuldi sem svarar til 1,3 milljónum króna.

Þetta kemur fram í svari Kópavogsbæjar við fyrirspurn frá innanríkisráðherra um skuldastöðu bæjarins. Af heildarskuldum eru tæplega 29 milljarðar kr. hjá A hluta bæjarsjóðs og rúmlega 10,5 milljarðar kr. hjá B hlutanum.

Tekið er fram í svarinu að ársreikningur Kópavogsbæjar fyrir síðasta ári sé enn í vinnslu og því liggi mat á skammtímaskuldum ekki endanlega fyrir.

Þá er tekið fram að skuld A-hlutans er án lífeyrisskuldbindinga sem námu rétt tæpum 4 milljörðum í árslok árið 2010.

Í svarinu segir að Kópavogur þurfi að endurfjármagna erlend lán upp á 5,5 milljarða króna á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×